Innlent

Handtekinn eftir vopnað rán í Firði

Birgir Olgeirsson skrifar
Maðurinn hótaði afgreiðslukonu með hnífi.
Maðurinn hótaði afgreiðslukonu með hnífi. FBL/Stefán
Lögreglan handtók í dag rétt rúmlega þrítugan íslenskan karlmann sem hafði framið vopnað rán í apóteki í verslunarmiðstöðinni Firði í Hafnarfirði í morgun. Maðurinn gekk þar inn á ellefta tímanum í morgun og hótaði afgreiðslukonu með hnífi ef hún færi ekki að kröfum hans.

Lögreglu barst tilkynning um málið klukkan 10:56 en þegar hún kom á vettvangi hafði maðurinn náð að ganga smá spöl frá verslunarmiðstöðinni áður en hann var handtekinn. Sævar Guðmundsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar í Hafnarfirði, segir manninn ekki hafa sýnt af sér mótþróa þegar hann var handtekinn.

Spurður hvað maðurinn hafði upp úr ráninu svarar Sævar að það sé óljóst á þessari stundu og því ekki vitað hversu miklum fjármunum eða lyfjum hann náði.

Verður maðurinn vistaður í fangageymslu í dag og svo ákvörðun tekin hvort farið verður fram á gæsluvarðhald yfir honum.

Þrír starfsmenn voru inni í apótekinu þegar maðurinn lét til skara skríða en Sævar segir engan hafa slasast. Starfsfólkið var hins vegar skelkað og í áfalli, sér í lagi konan sem maðurinn hótaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×