Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - Stjarnan 91-67 | Keflavík hélt sér á lífi

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
vísir/vilhelm


Keflavík héldu sér á lífi í úrslitakeppni Dominos deildar kvenna í kvöld með sigri á Stjörnunni. Leikið var í Blue höllinni í Keflavík og Keflavík unnu sannfærandi sigur 91-67. 

 

Bríet Sif Hinriksdóttir og Auður Íris Ólafsdóttir voru ekki með Stjörnunni í kvöld en báðar meiddust í seinasta leik. Þær eru lykilmenn og það sást vel á leik Stjörnunnar að það munaði um þær. 

 

Keflavík fóru betur af stað og voru fljótar að komast í 10-2 forystu. Stjarnan var að taka mikið af skotum utan af velli sem leyfði Keflavík að keyra upp hraðann í leiknum. Þá tók Pétur Már Sigurðsson þjálfari Stjörnunnar leikhlé. Eitthvað gáfulegt hefur Pétur sagt en Stjarnan náðu að róa leikinn og Stjarnan náðu að komast yfir í lok leikhlutans. Stjarnan sýndi mikla baráttu þegar þær komu sér aftur í leikinn en þær náðu í mikið af sóknarfráköstum. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 21-18 fyrir Stjörnunni þrátt fyrir að Keflavík hefðu sýnt meiri gæði.

 

Annar leikhluti var fjörugur framan af. Liðin skiptust á körfum og á tímapunkti leit út eins og Stjarnan gætu gert leik úr þessu þrátt fyrir að vera undirmannaðar. Danielle Rodriguez besti leikmaður Stjörnunnar fékk sína þriðju villu í stöðunni 29-29. Danielle þurfti að spila vörn af minni ákefð eftir að lenda í villuvandræðum og það sást. Stjarnan var ekki lengi að skipta yfir í svæðisvörn sem gekk ekki alls ekki nægilega vel. Keflavík fóru að ná í sóknarfráköst og fengu opna þrista eftir að Stjarnan fór í svæði.

 

Brittany Dinkins setti af stað áhlaup Keflavíkur með tveimur þristum í röð úr stöðunni 35-33. Eftir þristana frá Brittany litu Keflavík ekkert tilbaka. Þær kláruðu annan leikhluta frábærlega en þær enduðu leikhlutann á 17-3 áhlaupi úr stöðunni 35-33. Á þessum kafla var Stjarnan með of mikið af töpuðum boltum en Keflavík setti að mörgu leyti bara í lás. Þegar Keflavík spilar sína vörn af fullri ákefð er rosalega erfitt að skora á þær eins og sást í lok annars leikhluta. Svæðisvörnin hjá Stjörnunni á þessum kafla var ekki boðleg, Keflavík komust inn í teiginn eins og þær vildu ásamt því að ná 5 sóknarfráköstum á mjög stuttum tíma. 

 

Stjarnan hefði alveg getað komið tilbaka í byrjun þriðja leikhluta en hann byrjaði skrautlega hjá báðum sóknum. Eftir þrjár og hálfa mínútu af þriðja leikhluta var eina karfan í leikhlutanum skot sem Brittany setti niður eftir að Keflavík náði í þrjú sóknarfráköst í röð. Stjarnan nýttu sér hinsvegar ekkert klaufaskapinn í sókn Keflavíkur á þessum kafla en þær voru bara enn klaufalegri. Tapaðir boltar og skot af stuttu færi sem voru samt aldrei að fara ofan í körfuna einkenndu sóknarleik Stjörnunnar á þessum kafla. Stjarnan náði nokkrum sinnum í seinni hálfleik að minnka forystu Keflavíkur niður í 14 stig en þær komust aldrei nær en það. 

 

Af hverju vann Keflavík?

Keflavík gerði virkilega vel varnarlega í að láta Daniellu Rodriguez taka erfið skot en hún var ekki að hitta vel í kvöld þrátt fyrir að skora 20 stig. Sóknarleikur Stjörnunnar í kvöld var heilt yfir á köflum bara eins og þær voru að reyna að troða sér í færi sem voru ekki til. 

 

Sóknin hjá Keflavík var mjög góð í svona 30 af 40 mínútum í kvöld. Þegar Brittany hittir svona vel opnast svo mikið pláss fyrir hinar að það er eiginlega ekki hægt að stoppa Keflavík. 

 

Hverjar stóðu upp úr?

Brittany Dinkins var svakaleg í kvöld, Brittany skoraði 36 stig í kvöld. Hún var að finna allskonar eyður sóknarlega og ráðast á þær ásamt því að hitta mjög vel. Ef hún hittir aftur svona í næstu leikjum gæti Keflavík náð endurkomunni. Sara Rún kom virkilega vel út úr þessum leik, hún var að leggja í púkkið á bæði varnarlega og sóknarlega. Hún var ekkert að hitta stórkostlega en var samt stöðug ógn sóknarlega auk þess að vera stórkostlegur varnarmaður.  Sara skoraði 18 stig, tók 6 fráköst, gaf út 4 stoðsendingar og varði 2 skot í kvöld.

 

Bryndís Guðmundsdóttir átti góðan leik í kvöld. Hún var ekki að klára alveg nógu vel sóknarlega en hún gerði mest allt annað vel. Varnarlega stóð hún fyrir sínu ásamt því að taka 16 fráköst og gefa 7 stoðsendingar. Birna Valgerður Benónýsdóttir átti mjög fína spretti sóknarlega hjá Keflavík. Birna skoraði 13 stig, tók 2 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Það er örugglega rosalega þægilegt að hafa svona leikmann þar sem er hægt að senda á hana bara í teignum og hún býr eiginlega alltaf til gott skot. 

 

Jóhanna Björk Sveinsdóttir átti ágætis leik fyrir Stjörnuna en hún var dugleg að setja niður langa tvista. Hún var eina sem nýtti sér almennilega að allt Keflavíkur liðið einbeitti sér að Daniellu varnarlega. Jóhanna skoraði 17 stig og tók 6 fráköst.

 

Hvað gekk illa?

Daniella Rodriguez er mögulega besti leikmaðurinn í þessari deild en hún stóð ekki undir væntingum í kvöld. Hún hitti skelfilega úr tveggja stiga skotum, 1 af 15, ásamt því að geta ekki spilað eins vel varnarlega og hún gerir vanalega útaf þessum klaufalegu villum í fyrri hálfleik. 

 

30% nýtingin úr tveggja stiga skotum hjá Stjörnunni í kvöld er náttúrulega bara lögreglu mál. Þetta var oft af því að þær voru að taka erfið skot en stundum voru þær að fá fín færi við körfuna en samt klikka, jafnvel tvisvar í röð. Til að vinna Keflavík í Keflavík þá verða grunnatriðin að vera í lagi og það má ekki líta út eins og það sé bara verið að fleygja boltanum í átt að körfunni. 

 

Hvað gerist næst?

Liðin mætast í Garðarbænum á sunnudagskvöldið. Vonandi fyrir áhorfendur verða Auður og Bríet með en þetta gæti orðið blóðugt aftur ef þær eru aftur fjarverandi. Það væri auðvitað frábært afrek hjá Keflavík ef þær myndu klára þessa endurkomu eftir að vera undir 2-0. 

 

Brittany: Það væri heimskulegt að nýta sér það ekki

Brittany fann ekki skotið sitt nægilega vel í seinustu leikjum. Í kvöld var hún hinsvegar á eldi á köflum og skoraði 36 stig úr 24 skotum.

 

„Í hinum leikjunum var ég oft að hika og hafa áhyggjur af að koma liðsfélögum mínum inn í leikinn. Í kvöld fór ég bara aftur í þau atriði sem komu okkur í gegnum deildarkeppnina. Þetta byrjaði hjá mér, ég vissi að ef ég kæmist aftur í gang þá værum við líklegar til að vinna.” 

 

„Í fyrstu tveimur leikjunum var ég ekki að leita að skotunum mínum en í kvöld var ég að því og þau voru heldur betur að detta niður.” 

 

Sara Rún Hinriksdóttir kom til liðs við Keflavíkur í lok deildarkeppnarinnar. Brittany hafði aldrei áður spilað með Söru en það sást vel í kvöld að þær geta spilað frábærlega saman.

 

„Ég elska Söru. Ég gjörsamlega elska hana. Hún er algjörlega sá leikmaður sem við þurftum á að halda. Við erum eina liðið sem er bara með amerískan leikmann en engan Bosman-leikmann.” 

 

„Sara býr yfir miklum gæðum og að hún sé íslenskur leikmaður gefur okkur mjög mikið. Hún býr til mikið pláss fyrir mig til að búa mér til færi. Sömuleiðis getur hún líka gert sína hluti sóknarlega.” 

 

Bríet Sif Hinriksdóttir og Auður Íris Ólafsdóttir voru ekki með Stjörnunni í kvöld en þær voru báðar meiddar. Keflavík nýttu sér það en Stjarnan er ekki með sömu breidd og Keflavík. 

 

„Ég veit ekki hversu mikil áhrif það hafði. Allar þær sem spila eru í körfuboltaliði svo þær ættu að vera nokkuð góðar. Ef leikmenn eru meiddir verða aðrir leikmenn að koma inn og fylla í skarðið.” 

 

„Þetta er úrslitakeppnin. Þeir leikmenn sem reima á sig skóna spila og það er bara þannig. Þær voru með meiðsli og við nýttum okkur það augljóslega en það væri heimskulegt að nýta sér það ekki.” 

 

Serían fer aftur í Garðarbæinn á sunnudaginn þar sem Keflavík getur jafnað. Endurkoma frá Keflavík í þessari seríu væri mögnuð en þær ætla ekki að missa sig í gleðinni yfir að vinna einn leik.

 

„Mér líður vel fyrir næsta leik. Ég ætla samt ekki að taka neinu sem sjálfsögðum hlut. Ég bara svöng og þetta gerir mig bara svengri. Við vitum að við þurfum að taka þetta einn leik í einu. Við erum ekkert að flýta okkur, við náðum bara í þennan fyrsta sigur.” 

 

„Við ætlum að skoða hvað við gerðum vel í kvöld. Við ætlum að halda áfram að gera þá hluti í næsta leik og við ætlum að koma inn í þann leik af fullum krafti. Við vitum að þær eru ekki lið sem hættir. Þær munu koma inn í þann leik og reyna að klára seríuna.” 

 

Verður þú Íslandsmeistari í vor?

 

„Markmiðið er að standa uppi sem Íslandsmeistari. Ég er manneskja sem vill standa við orð sín. Eins og ég spilaði fyrstu tvo leikina hefði maður ekki haldið að við gætum unnið titilinn. En markmiðið er að verða Íslandsmeistari það er eina sem ég get sagt þér. Markmiðið er enn í sjónmáli en við ætlum bara að taka þetta einn leik í einu.” 

 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira