Helena Sverrisdóttir setti nýtt framlagsmet í lokaúrslitum kvenna sem lauk um helgina með sigri Helenu og félaga í Valsliðinu.
Helena skilaði 37,0 framlagsstigum að meðaltali í leikjunum þremur en það er hæsta framlag að meðaltali hjá íslenskri körfuboltakonu í sögu lokaúrslita úrslitakeppninnar.
Helena bætti þar eigið met frá árinu 2007 en hún hafði tekið metið af Önnu Maríu Sveinsdóttir frá 2004.
Í lokaúrslitunum í ár var Helena með 27,7 stig, 11 fráköst og 7 stoðsendingar að meðaltali í leik í þremur sigurleikjum Vals á móti Keflavík.
Helena á nú fimm af sex bestu bestu lokaúrslitum íslenskra körfuboltakvenna þegar tekið er mið af framlagsstigum í leik. Þegar Anna María hætti á sínum tíma þá átti hún einnig fimm af sex bestu lokaúrslitunum eins og Helena nú.
Helena setti líka met í fyrra þegar hún varð sú fyrsta í sögunni til að vera með þrennu að meðaltali í leik í úrslitaeinvíginu.
Helena náði ekki þó að bæta framlagsmet Penny Peppas frá 1995 en Peppas hjálpaði þá Blikum að verða Íslandsmeistarar í fyrsta og eina skiptið með því að skila 41,3 framlagsstigum að meðaltali í leik.
Fimmtán bestu frammistöður íslenskra körfuboltavenna í lokaúrslitum:
(Út frá framlagsstigum að meðaltali í leik - tölfræði til frá 1995)
37,0 - Helena Sverrisdóttir, Val 2019
33,5 - Helena Sverrisdóttir, Haukum 2007
32,6 - Helena Sverrisdóttir, Haukum 2018
29,3 - Anna María Sveinsdóttir, Keflavík 2004
29,25 - Helena Sverrisdóttir, Haukum 2016
26,7 - Helena Sverrisdóttir, Haukum 2006
26,0 - Anna María Sveinsdóttir, Keflavík 2005
25,6 - Unnur Tara Jónsdóttir KR 2010
25,4 - Alda Leif Jónsdóttir, ÍS 2002
24,0 - Anna María Sveinsdóttir, Keflavík 1995
23,4 - Anna María Sveinsdóttir, Keflavík 2000
21,8 - Signý Hermannsdóttir, KR 2010
21,5 - Anna María Sveinsdóttir, Keflavík 1996
20,7 - Hildur Björg Kjartansdóttir, Snæfelli 2014
20,7 - Sara Rún Hinriksdóttir, Keflavík 2015
Helena á nú fimm af sex bestu bestu lokaúrslitum íslenskra körfuboltakvenna frá upphafi
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
