„Skil ganga vestur yfir landið á morgun með vaxandi vindi og úrkomu og hlýnar heldur í veðri fyrir norðan. Úrkoman verður yfirleitt í formi rigningar sunnan- og vestanlands, en slydda eða jafnvel snjókoma norðan og austanlands fyrripart dags, en fer yfir í rigningu þegar líður á daginn. Snýst í suðaustanátt og dregur úr úrkomu annað kvöld, fyrst austantil á landinu. Hitaskil fara síðan vestur yfir landið á miðvikudag með rigningu og hlýnar enn frekar í veðri. Besti dagur vikunnar verður að öllum líkindum sumardagurinn fyrsti (fimmtudag), en þá er útlit fyrir fínasta hátíðarveður í flestum landshlutum, sólríkt og fremur hlýtt í veðri,“ segir í hugleiðingu veðurfræðings.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur birti í morgun spá fyrir 1. maí en þar viðrar hann áhyggjur ýmissa á meginlandi Evrópu vegna Grænlandsfyrirstöðu um mánaðamótin.
Er óttast að sú fyrirstaða geti valdið verulegu bakslagi í vorkomuna með næturfrosti í norður Þýskalandi og Niðurlöndum, svo ekki sé talað um Skandinavíu og Danmörku.
Einar segir í samtali við Vísi að enn sé einhver óvissa varðandi þessa spá en hvar fyrirstöðuhæðin verður staðsett getur haft þó nokkur áhrif hér á landi. Kuldastroka frá henni gæti náð til Íslands en eins og spáin lítur út í dag mun þessi fyrirstöðuhæð hins vegar ekki valda usla hér á landi heldur sólríku og þurru veðri en með þó nokkurri dægursveiflu á hita sem verður um meðallag miðað við árstíma, eða um 3 til 6 gráður.