Búið er að afhenda lögreglu vettvanginn og fást ekki upplýsingar um eldsupptök hjá slökkviliðinu. Að sögn varðstjóra varð töluvert tjón á húsnæðinu við Dalshraun en einnig komst mikill reykur og vatn inn á lager í verslun Húsasmiðjunnar sem er í sömu byggingu. Vinna slökkviliðsmanna í gærkvöldi sneri einkum að hreinsun í versluninni.
Fimmtíu manns búa í húsinu að Dalshrauni en bjarga þurfti íbúum af svölum hússins eftir að eldurinn kviknaði. Aðrir komust út af sjálfsdáðum en engin slys urðu að fólki.
