Íslendingalið CSKA Moskvu gerði jafntefli við Lokomotiv Moskvu í borgarslag í rússnesku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.
Hörður Björgvin Magnússon og Arnór Sigurðsson voru báðir í byrjunarliði CSKA.
Það voru heimamenn í Lokomotiv sem byrjuðu leikinn betur en Benedikt Howedes kom þeim yfir á þrettándu mínútu leiksins.
Fedor Chalov jafnaði hins vegar fyrir gestina áður en fyrri hálfleikur var úti og staðan 1-1 í hálfleik.
Í seinni hálfleik náði hvorugt liðið að setja mark í leikinn og því endaði leikurinn 1-1.
Lokomotiv er í öðru sæti deildarinnar með 43 stig, sex stigum á eftir toppliði Zenit. CSKA er í fjórða sætinu með 41 stig.
