Roberto Firmino æfði með Liverpool í dag og flaug með liðinu til Barcelona, en hann missti af síðasta leik liðsins vegna meiðsla.
Liverpool mætir nýkrýndum Spánarmeisturum Barcelona í fyrri leik undanúrslita Meistaradeildar Evrópu á morgun. Þeir rauðu munu þurfa á sínum sterkustu leikmönnum að halda til þess að hafa betur gegn Barcelona á Camp Nou.
Firmino var ekki með Liverpool gegn Huddersfield í síðasta deildarleik vegna smávægilegra meiðsla í vöðva.
Hann virðist hins vegar vera búinn að jafna sig á þeim því hann tók þátt í opinni æfingu Liverpool á æfingasvæði þeirra í dag áður en liðið hélt svo til Spánar.
„Við vissum að þetta yrði kapphlaup. Við tökum enga ákvörðun í dag, ég geri það ekki fyrr en eftir hádegi á morgun,“ sagði Jurgen Klopp í dag um það hvort Firmino næði leiknum.
Fabinho, sem missti einnig af leiknum við Huddersfield vegna höfuðmeiðsla, er hins vegar orðinn klár í slaginn.
