Andrés Ingi hélt mikla eldræðu um loftslagsmál á Alþingi í dag undir liðnum störf þingsins.
Hann hóf ræðu sína á umfjöllun um sænsku hugsjónastúlkuna Gretu Thunberg sem hefur á hverjum föstudegi í marga mánuði setið fyrir utan sænska þingið í svokölluðu „skólaverkfalli“ og mótmælt seinagangi stjórnvalda í loftslagsmálum. Hún hefur sakað ráðamenn heimsins um að ræna framtíð barna sinna fyrir framan nefið á þeim.
Andrés segir að þegar Greta hafi vaknað til meðvitundar um umfang vandans hafi hún náð virkja heila kynslóð til aðgerða og fengið hana með sér í loftslagsverkfall hvern föstudag.

Andrés spurði þingheim hvort téðar aðgerðaráætlanir séu yfir höfuð nóg; hvort vandinn sé orðinn það knýjandi að lýsa þurfi yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Áður en til þess komi sagði Andrés að nærtækt væri að líta í kringum sig og finna dæmi um breytingar sem hægt sé að hrinda í framkvæmd því sem næst tafarlaust.
„Hvernig væri að klára frumvarp mitt um að leggja til hliðar allar hugmyndir um olíuvinnslu á vegum Íslands? Þannig sýnum við svo ekki verði um villst að sá iðnaður sé arfur fortíðar,“ sagði Andrés.
Hann stakk auk þess upp á því að þingmenn myndu neita að taka á móti samgönguáætlun í haust nema að hún boðaði alvöru byltingu í sjálfbærum samgöngum.
Andrés lauk máli sínu á hugvekju um lækkun kosningaaldurs.
„Og loks gætum við litið á Gretu sjálfa sem brennur af þessari hugsjón 16 ára. Hversu miklu betra gæti samfélagið verið ef hún og jafnaldrar hennar hefðu ekki bara rödd til að vekja okkur heldur líka völdin til að láta okkur gjalda þess í kjörklefanum ef við vöknum ekki?“