„Þetta verður ótrúlegt sjónarspil. Tónlistin hennar Önnu er hreint út sagt mögnuð, algjör gæsahúða tónlist út í gegn. En þetta er ekki þessi týpíska uppsetning á sýningu. Hér er það ekki þannig að dansararnir eru á sviðinu og hljómsveitin í gryfjunni. Í AION eru allir á sviðinu og sameinast í eina heild,” segir Íris María Stefánsdóttir, markaðsstjóri Íslenska dansflokksins.
„Við erum því að óska eftir gefins strengjahljóðfærum, blásturshljóðfærum og áslátturhljóðfærum sem að við getum dansað við. Við þurfum að geta hlaupið með þau, hoppað með þau og jafnvel kastað þeim á milli okkar og skiljanlega þá eru hljóðfæraleikararnir ekki til í að lána sín hljóðfæri,” bætir Íris við og hlær.
„Þannig að það er í góðu lagi þó að þau séu ónýt og virki ekki í þeim tilgangi sem þeim var ætlað.”
Dansflokkurinn leggur af stað til Gautaborgar þann 19. maí og verða stífar æfingar þá vikuna með Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar. Ef fólk lumar á hljóðfærum sem má dansa við þá má hafa samband við Írisi, iris@id.is