Fyrirspurnin varðaði kaup ríkisins á hugbúnaði en Björn kom hins vegar að tómum kofanum hjá Bjarna. Á myndbandsupptöku úr þingsal má sjá að Bjarni var að nota snjallsíma í sæti sínu á meðan Björn bar upp fyrirspurnina.
„Afsakið forseti, ég hafði tekið því þannig að fyrirspurninni væri beint á annan ráðherra, ég var bara ekki að fylgjast nægilega vel með. Ég verð bara að taka það á mig þó að ég hafi verið hérna í þingsal,“ sagði Bjarni.
„Þá er úr vöndu að ráða,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingforseti, sem lagði til að Björn bæri fram fyrirspurn sína aftur og að fjármálaráðherra hlustaði vel.
Baðst Bjarni síðan afsökunar og lofaði því að afla upplýsinga til að svara fyrirspurn Björns.
„Símana nota þeir eflaust til að vera í sambandi við aðstoðarfólk sitt sem situr í hliðarsölum og dælir í þá punktum til að nota í svarræðum. Eða kannski eru þeir í Candy Crush eða kapal, hvað veit ég? En útkoman verður sú að þeir hafi öðrum og mikilvægari skyldum að gegna en að sitja undir ræðum þingmanna; þeir séu í raun og veru annars staðar – að stjórna landinu,“ skrifaði Guðmundur Andri og vildi meina að þetta hafi verið það sem kom Bjarna í koll í gær.
