Pólitískur leiðtogi ETA samtakanna, aðskilnaðarhreyfingar Baska, sem álitin eru hryðjuverkasamtök af Evrópusambandinu, hefur verið handtekinn eftir að hafa verið í sautján ár á flótta. José Antonio Urrutikoetxea, sem gengur undir nafninu Josu Ternera, var handtekinn í frönsku ölpunum í bænum Sallanches í sameiginlegri aðgerð frönsku og spænsku lögreglunnar.
Hann er sakaður um fjölmörg morð en ETA háðu blóðuga baráttu fyrir sjálfstæði Baska í rúm fjörutíu ár. Samtökin lýstu því yfir í fyrra að þau væru hætt störfum en rúmlega átta hundruð manns lágu í valnum áður en yfir lauk, eða þegar samtökin tilkynntu um vopnahlé árið 2011.
Ternera, sem er 68 ára gamall, er sagður alvarlega veikur og lögreglan komst á spor hans þegar hann var á leið á spítala. Á meðal þess sem Ternera er sakaður um er bílsprengjuárás sem gerð var fyrir utan herstöð spænsku herlögreglunnar í Zaragoza árið 1987 þar sem ellefu létu lífið, þar á meðal fimm börn.
Hann sendi frá sér hljóðupptöku í mái í fyrra þar sem hann sagði ETA hafa verið lagt niður og að samtökin væru ekki lengur starfandi. Ternera hefur verið eftirlýstur frá því í nóvember 2002 þegar hann mætti ekki fyrir dómara á Spáni vegna árásarinnar í Zaragoza.
Spænskir dómstólar vilja rétt yfir Ternera fyrir glæpi gegn mannkyninu. Þrír aðrir meðlimir ETA hafa verið ákærðir fyrir sömu glæpi en þeir sitja í fangelsum í Frakklandi og hefur ekki verið réttað yfir þeim á Spáni.

