Erlent

Hótaði Donald Trump og sér fram á langa fangelsisvist

Sylvía Hall skrifar
Donald Trump er forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump er forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Gary Gravelle, 51 árs gamall maður frá Connecticut í Bandaríkjunum, hefur verið ákærður fyrir morðhótanir í garð Donald Trump Bandaríkjaforseta sem og fjölda sprengjuhótana. Verði hann fundinn sekur í öllum ákæruliðum á hann yfir höfði sér allt að 140 ára fangelsi. Reuters greinir frá.

Morðhótarnirnar bárust í september árið 2018 og mátti finna „grunsamlegt“ hvítt púður og handskrifuð skilaboð frá Gravelle þar sem stóð einfaldlega: „Þú deyrð“. Þá sendi hann samskonar skilaboð á sýnagógur, moskur og á samtök sem vinna að hagsmunum minnihlutahópa.

Gravelle hringdi einnig símtöl og sendi tölvupósta sem innihéldu sprengjuhótanir. Sagðist hann ætla fremja sprengjuárás í Vermont, Washington og á hinum ýmsu stöðum í Connecticut, þar á meðal í byggingum í eigu ríkisins.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Gravelle er ákærður fyrir hótanir í líkingu við þessar en hann hlaut dóm árið 2013 fyrir að hafa átt í ógnandi hótunum við einstaklinga og fyrirtæki. Hann hafði verið undir eftirliti frá því að hann var laus úr fangelsi og þar til hann var handtekinn aftur á síðasta ári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×