Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir ekkert hæft í þeim sögusögnum að hann taki við Juventus í sumar.
Ítalíumeistararnir eru í stjóraleit og Klopp er meðal þeirra sem hafa verið orðaðir við Juventus. En hann segist ekki vera á förum frá Liverpool.
„Ég er hrifinn af þessari deild, Ítalía er fallegt land en þetta er kjaftæði. Það er ekkert til í þessum sögusögnum. Ég fer ekki frá Liverpool,“ sagði Klopp.
„Ég þekki ítölsku deildina vel og er hrifinn af henni en ég verð áfram hjá Liverpool.“
Klopp undirbýr nú Liverpool-liðið fyrir úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á laugardaginn. Þar mætir Rauði herinn Tottenham á Wanda Metropolitano, heimavelli Atlético Madrid.
