Þristurinn Betsy's Biscuit Bomber er meðal þeirra sem lenda í Reykjavík síðdegis.Mynd/D-Day Squadron.
Fimm gamlir stríðsþristar eru nú á leið til Íslands frá Grænlandi og búist við að þeir lendi allir í Reykjavík síðdegis. Almenningi býðst að skoða flugvélarnar milli kl. 19 og 21 í kvöld norðan við Loftleiðahótelið.
Uppfært kl. 17.00. Staðfestir lendingartímar fimm véla: Kl. 15.30, kl. 16.35, kl. 16.40, kl. 17.35 og kl. 18.06.
Flugvélarnar í þessum hópi bera gæluheitin Betsy’s Biscuit Bomber, Virginia Ann, Pan Am, Flabob Express og D-Day Doll. Rétt eins og þristarnir í fyrsta hópnum, sem kom í byrjun vikunar, eiga þessir það flestir sammerkt að eiga áhugaverða og jafnvel ævintýralega rekstrarsögu frá stríðsárunum.
Þristurinn Flabob Express.Mynd/D-Day Squadron.Sem dæmi má nefna þristinn sem kallast Flabob Express en hann var í þjónustu breska flughersins í stríðinu. Eitt hlutverk hans var að fljúga með æðstu ráðamenn Bretlands, þar á meðal sjálfan Winston Churchill og meðlimi bresku konungsfjölskyldunnar. Fullyrt er að í gömlum flugdagbókum vélarinnar séu nöfn bæði Churchills og Margrétar prinsessu skráð á farþegalista.
Annað dæmi er þristurinn sem nú kallast Pan Am, með skrásetningarnúmer N877MG. Í síðari heimsstyrjöld þjónaði hann mikilvægri flutningaleið Bandaríkjahers milli Indlands og Kína sem nefndist „over the Hump“ og lá yfir Himalaya-fjöllin. Eftir stríð komst hann í eigu Pan Am-flugfélagsins, sem nýtti hann mest á örstuttri flugleið milli Hong Kong og borgarinnar Guangzhou, eða Canton, á meginlandi Kína.
Sögufrægasta flugvélin, „That's All, Brother", sú sem leiddi innrásina í Normandí, flaug frá Reykjavík til Bretlands í gær.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.Þeim sem undrast hversvegna margir flugáhugamenn hafa tekið sérstöku ástfóstri við þessa flugvélartegund er bent á að skoða þessa frétt, sem sýnd var á Stöð 2 fyrir tveimur árum:
Flug gömlu stríðsvélanna um Reykjavíkurflugvöll gæti náð hápunkti á morgun. Vonast er til að meirihluti þeirra átta þrista, sem enn eru ókomnir, komist til Íslands á morgun.