„Þýsk stjórnvöld hafa nú staðfest umfangsmikla aðstoð alríkislögreglunnar með aðkomu bæði þáverandi forseta hennar og þáverandi ráðuneytisstjóra innanríkisráðuneytis Vestur-Þýskalands Siegfried Fröhlich,“ segir Hunko og vísar til svars þýskra stjórnvalda sem barst í vikunni.
Hunko segir löngu tímabært að þýsk stjórnvöld bjóði íslenskum stjórnvöldum alla mögulega aðstoð við að upplýsa að fullu þátt Þjóðverja í málinu en í svari þýskra stjórnvalda kemur fram að engin beiðni um slíka aðstoð hafi komið frá íslenskum yfirvöldum.
„Að mati Gísla Guðjónssonar réttarsálfræðings, voru það yfirheyrsluaðferðir BKA sem leiddu til hinna fölsku játninga sem veittar voru í málinu,“ segir Hunko og nefnir einnig langa einangrunarvist sakborninga, vatnspyndingar, lyfjagjafir og dáleiðingar sem prófaðar hafi verið á sakborningunum.
„Þýska ríkið þarf að bæta þolendum málsins fyrir þær aðferðir sem notaðar voru og skiluðu fölskum játningum,“ segir Hunko og að það gildi bæði um þá sem enn lifa og aðstandendur þeirra sem látnir eru.

Mun Pétur hafa óskað eftir aðstoð BKA við rannsóknir morðmála á Íslandi. Fröhlich mun að sögn hafa ekki hafa talið beina aðkomu BKA æskilega í byrjun en boðist til að hafa samband við mann sem á þeim tíma var nýkominn á eftirlaun. Karl Schütz hafi reynst reiðubúinn og í framhaldinu haldið til Reykjavíkur þar sem gengið hafi verið frá samningum við hann.
Í svarinu er einnig greint frá bréfaskiptum Ólafs Jóhannessonar og Siegfried Fröhlich þar sem hinn síðarnefndi féllst á ósk ráðherrans um framkvæmd réttarmeinarannsókna á rannsóknarstofu BKA. Segir Fröhlich að Horst Harold, forseti BKA, muni með ánægju láta framkvæma þær rannsóknir sem óskað sé frá Íslandi vegna málsins. Ekki liggi fyrir hvort eða hver hafi greitt fyrir þær rannsóknir sem gerðar voru.
Fyrirspurnin laut einnig að afstöðu þýskra stjórnvalda til málsins í dag þegar ljóst væri orðið að brotið hefði verið alvarlega gegn fólki með vitund og vilja og jafnvel undir stjórn fulltrúa BKA. Svör þýskra stjórnvalda við þeim spurningum eru að Karl Schütz hafi verið kominn á eftirlaun og því veitt aðstoð sína í eigin nafni en ekki á vegum BKA eða þýskra yfirvalda.
Hunko segir þversögn í þessu yfirlýsta ábyrgðarleysi þýskra stjórnvalda, enda ljóst af svarinu sjálfu að lagt var á ráðin milli háttsettra embættismanna um aðkomu Schütz, auk þeirrar tækniaðstoðar sem veitt hafi verið. Þá hafi fimm þýskum embættismönnum, auk Schütz sjálfs, verið verið launað ríkulega með heiðursorðum íslenska ríkisins.