Erlent

Trump áfrýjar úrskurði um fjárhagsupplýsingar hans

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump er mikið í mun um að upplýsingar um fjármál hans verði ekki gerðar opinber.
Trump er mikið í mun um að upplýsingar um fjármál hans verði ekki gerðar opinber. Vísir/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti áfrýjaði í dag úrskurði alríkisdómara um að eftirlitsnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings hafi rétt á fá fjárhagsupplýsingar um forsetann afhentar. Nefndin hefur krafið bókhaldsfyrirtæki forsetans um gögnin.

Demókratar sem hafa meirihluta í fulltrúadeild þingsins vilja fá aðgang að fjárhagsupplýsingum Trump til að varpa ljósi á hvort að forsetinn eigi í hagsmunaárekstrum eða hafi brotið lög með því að slíta ekki á öll tengsl við viðskiptaveldi sitt. Trump hefur staðfastlega neitað að birta skattskýrslur sínar, ólíkt öllum öðrum forsetum og forsetaframbjóðendum undanfarinna áratuga.

Hvíta húsið hefur reynt að koma í veg fyrir að Bandaríkjaþing fái aðgang að upplýsingum um Trump og fullyrtu fyrir dómi að eftirlitsnefndin færi út fyrir valdsvið sitt með því að krefjast þeirra. Alríkisdómari hafnaði þeirri lagatúlkun í gær og sagði að nefndin hefði rétt á að gefa út stefnur til að krefjast gagnanna.

Lögmenn Trump áfrýjuðu þeim úrskurði til alríkisdómstól í Washington-borg í dag, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Bókhaldsfyrirtækið hefur sagst ætla að uppfylla lagaskyldur sínar en að það ætli að bíða niðurstöðu dómstóla.

Trump og ríkisstjórn hans hafa tekið þá stefnu að hunsa allar tilraunir demókrata á Bandaríkjaþingi til að veita forsetanum aðhald með því að krefjast gagna. Auk þess að stefna til að koma í veg fyrir að fjárhagsupplýsingar hans verði birtar hefur Trump bannað embættismönnum sínum að bera vitni fyrir þingnefndum og fjármálaráðherranum að afhenda skattskýrslur hans.


Tengdar fréttir

Verða að afhenda fjárhagsupplýsingar um Trump

Dómari í Bandaríkjunum hefur skipað endurskoðunarfyrirtækinu Mazars að afhenda stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings skýrslur og upplýsingar um fjárhag Donald Trump, forseta bandaríkjanna, frá því áður en hann tók við embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×