Þetta kemur fram í Facebook-færslu Gísla Marteins þar sem hann gerir upp keppnina í ár. Hann segir árangur Hatara vera stórglæsilegan.
„Við endum í 10. sæti af 41 þjóð, unnum símakosninguna í okkar riðli og urðum í 6. sæti í símakosningunni í úrslitunum. Hinn góði árangur felst þó ekki síst í framgöngu Hatara, bæði á sviðinu og utan þess,“ skrifar Gísli Marteinn og vísar þar í að fjallað hafi verið um Hatara og skilaboð þeirra í mörgum af stærstu fjölmiðlum heims. Þannig hafi fánagjörningurinn í raun verið ópólítískari yfirlýsing en atriðið sjálft.
„Palestína er fullvalda ríki sem við Íslendingar viðurkennum sem slíkt. Við Rúv-arar vitum auðvitað vel að þau máttu ekki sýna fánaliti þeirra á þessum tímapunkti og hefðum ekki samþykkt það ef við hefðum verið spurð,“ segir Gísli Marteinn.
Komið hefur fram að gjörningur Hatara verði ræddur á næsta fundi framkvæmdastjórnar keppninnar, eftir tvær vikur. Gísli Marteinn telur sem fyrr segir að ólíklegt sé að framkvæmdastjórnin muni bregðast hart við.
„En ég væri mjög hissa ef EBU tæki harkalega á þessu í ljósi fjölmargra annara dæma um þjóðfána annarra ríkja í keppninni og sömuleiðis yfirlýsingar Madonnu á sviðinu skömmu áður. (Ef Eivör hefði tekið þátt í keppninni fyrir okkar hönd 2003 (þegar hún var í forkeppninni) og sveiflað færeyska fánanum í græna herberginu, væru einhverjir á Íslandi þá að ræða brot á reglum keppninnar?),“ skrifar Gísli Marteinn.