Þetta þýðir á fjórði þristurinn mun sennilega þurfa að lenda í Keflavík í kvöld þar sem reglur Reykjavíkurflugvallar banna lendingar þar eftir klukkan 23. Fyrr í dag var sótt um undanþágu frá banninu en Samgöngustofa hafnaði þeirri ósk.
Siðdegis á morgun er búist við fimm til sex þristum til viðbótar, en sá fyrsti kom í gærkvöldi og flaug áfram í hádeginu í dag.
Flugvélarnar verða væntanlega til sýnis almenningi á miðvikudag en þeim verður lagt á stæði norðan við byggingu Icelandair á Reykjavíkurflugvelli. Stefnt var að því að sýna vélarnar á morgun, þriðjudag, en óvíst að af því verði fyrr en á miðvikudag og verður tímasetning auglýst nánar.
Flugmálafélag Íslands, Isavia og fyrirtæki sem annast þjónustu og afgreiðslu ferjuflugvéla á Reykjavíkurflugvelli hafa samvinnu um að taka á móti vélunum og aðstoða hópinn eftir þörfum, samkvæmt upplýsingum Flugmálafélagsins og Þristavinafélagsins.

Vélar Bandaríkjamanna munu bætast í hóp sams konar véla frá Evrópu og Ástralíu og er þeim stefnt saman í Englandi áður en flogið verður yfir Ermarsund 6. júní. Gert ráð fyrir alls kringum 30 vélum og munu um 250 fallhlífastökkvarar verða með vélunum og lenda á strönd Frakklands.
Allar vélarnar eru áratuga gamlar og Þristurinn skipar merkilegan sess í flugsögu heimsins og hafa því einstaklingar sem félög víða um heim kappkostað að viðhalda þessum vélum, halda þeim flughæfum og sýna þær við sérstök tækifæri.