Björgunarsveitir við Ísafjarðardjúp fengu tilkynningu á tólfta tímanum um að tveir menn væru í sjálfheldu í miklu brattlendi í austan megin í Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði, nánar tiltekið í Nautahvilft.
Þrír hópar björgunarsveitarmanna gengu á fjallið en aðstæður í fjallinu voru erfiðar, snjór og krapi. Jón Arnar Gestsson er í svæðisstjórn Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Vestfjörðum og tók hann þátt í aðgerðum í nótt.

Mennirnir höfðu orðið viðskila. Erfitt reyndist að staðsetja þá nákvæmlega en þeir voru í um sjö hundruð metra hæð. Tveimur tímum eftir að útkallið barst komust björgunarsveitarmenn að fyrri manninum og tókst að koma honum úr sjálfheldunni og niður fyrir kletta.
„Hann hékk þarna á klettasyllu og gat sig hvergi hreyft. Þeir þurftu að klæða hann í fjallabúnað, mannbrodda og ísaxir og sigbúnað til þess að koma honum þaðan,” segir Jón Arnar.

„Það var ekkert annað í boði. Það var eins og ég segi. Seinni maðurinn sást ekkert fyrr en um seint og um síður og það var ekki hægt að komast að honum, hvorki ofan frá né neðan,” segir Jón Arnar.
Á sjötta tímanum í morgun tókst áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar að koma manninum niður úr fjallinu eftir að hafa híft hann um borð. Hann var orðinn nokkuð kaldur og hrakinn, en óslasaður. Jón Arnar segir aðstæðurnar í fjallinu mjög hættulegar.
Þetta er alveg snarbratt þarna. Menn fóru upp á fjórum fótum eins og maður segir. Ef að menn hefðu misst fæturna þá hefðu þeir rúllað langt niður,” segir Jón Arnar.

