Innlent

Stal fötum úr þvottahúsi í sameign

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lögreglan hafði í ýmsu að snúast á vaktinni í gærkvöldi og nótt.
Lögreglan hafði í ýmsu að snúast á vaktinni í gærkvöldi og nótt. vísir/vilhelm
Óskað var eftir aðstoð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu upp úr klukkan níu í gærkvöldi í Bústaðahverfinu í Reykjavík vegna þjófnaðar á fatnaði úr þvottahúsi í sameign fjölbýlishúss.

Í dagbók lögreglu segir að sakborningurinn, þrítug kona, hafi verið stöðvuð utandyra og hafi hún afhent fötin sem hún stal. Hún viðurkenndi brotið og sagði hafa verið að koma úr heimsókn hjá vinkonu sinni.

Um klukkan hálfsex í gær var svo tilkynnt um slagsmál í Austurstræti en það var yfirstaðið og allir farnir þegar lögregla kom á staðinn.

Þá var tilkynnt um umferðarslys á Breiðholtsbraut við Selásbraut skömmu eftir klukkan hálfsex. Varð þriggja bíla árekstur og sagði sá sem olli slysinu að hann hefði misst athyglina í smá stund. Tveir voru fluttir á slysadeild með minniháttar meiðsl.

Upp úr klukkan hálfeitt í nótt óskaði svo starfsfólk verslunar á Granda eftir aðstoð lögreglu vegna þjófnaðar. Var sakborningur látinn laus að lokinni skýrslutöku á vettvangi.

Skömmu fyrir hálfþrjú í nótt barst síðan tilkynning um tvo menn uppi á þaki á Fossvogsskóla. Voru þar á ferð tveir ölvaðir 16 ára strákar. Þeim var ekið heim til sín og rætt við foreldra.

Rétt fyrir klukkan þrjú var svo tilkynnt um innbrot og þjófnað í heimahús í Árbæ. Var gluggi spenntur upp og reiðufé og ýmsum persónulegum munum stolið. Málið er í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×