Ásmundur Kristinn Ásmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi, segir að mikill viðbúnaður hafi verið á vettvangi slyssins. Kalla þurfti út sjúkrabíl og slökkvilið sem kom frá Bifröst, lögreglu frá Borgarnesi og Akranesi sem og tæknideild frá höfuðborgarsvæðinu.
Ekkert bendir til þess að um hraðakstur hafi verið að ræða. Ásmundur segir að ökumaður hafi líklega misst stjórn á bifreiðinni í lausri möl í vegöxlinni með þeim afleiðingum að hann valt út af veginum. Áfram er unnið að rannsókn slyssins.
Lögregla lokaði fyrir umferð um Þjóðveginn þar til vinnu var lokið á vettvangi klukkan þrjú í nótt.
