Erlent

Huckabee Sanders yfirgefur Hvíta húsið

Kjartan Kjartansson skrifar
Í tíð Huckabee Sanders voru daglegir blaðamannafundir í Hvíta húsinu, sem áður var hefð, svo gott sem aflagðir.
Í tíð Huckabee Sanders voru daglegir blaðamannafundir í Hvíta húsinu, sem áður var hefð, svo gott sem aflagðir. Vísir/EPA
Sarah Huckabee Sanders, blaðafulltrúi Hvíta hússins, lætur af störfum í lok þessa mánaðar. Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti þetta á Twitter í kvöld. Huckabee Sanders er sögð ætla að flytja aftur í heimahagana í Arkansas og hvetur forsetinn hana til að bjóða sig fram til ríkisstjóra þar.

New York Times segir að Huckabee Sanders hafi tilkynnt samstarfsmönnum sínum um að hún væri á förum um klukkustund áður en forsetinn tísti um brotthvarf hennar. Ekki hefur verið tilkynnt um eftirmann hennar.

Ólíklegt er að blaða- og fréttamenn í Washington-borg eigi eftir að sakna Huckabee Sanders. Í tíð hennar voru daglegir fréttamannafundir lagðir af í Hvíta húsinu og hún var ítrekað sökuð um að fara með ósannindi fyrir forsetann.

Rúmir þrír mánuðir eru nú liðnir frá því að Huckabee Sanders hélt formlegan blaðamannafund í Hvíta húsinu.

Í tísti sínu lýsti Trump fráfarandi blaðafulltrúanum sem „yndislegri“ og „sérstakri manneskju með magnaða hæfileika“. Sagðist hann vonast til þess að hún byði sig fram til ríkisstjóra Arkansas. Huckabee Sanders er dóttir Mike Huckabee, fyrrverandi ríkisstjóra Arkansas.

Í tísti sem Huckabee Sanders sendi frá sér í kvöld segist hún unna forsetanum og starfinu. Hún telji sig hafa notið blessunar að Trump hafi gefið henni tækifæri til að vinna fyrir hann og hún sé stolt af því sem hann hafi gert.

„Mikilvægasta starfið sem ég mun nokkurn tímann hafa er að vera móðir barnanna minna og það er kominn tími fyrir okkur að snúa heim. Þakka þér, herra forseti!“ tísti hún.


Tengdar fréttir

Blaðafulltrúi Hvíta hússins laug um Comey

Sarah Huckabee Sanders viðurkenndi að fullyrðingar hennar um að fyrrverandi forstjóri FBI hafi misst traust starfsmanna sinna hafi verið úr lausu lofti gripnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×