Innlent

Sjö í fangageymslum eftir erilsama nótt

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Ökumaður sem ók undir áhrifum vímuefna reyndist vopnaður eggvopni.
Ökumaður sem ók undir áhrifum vímuefna reyndist vopnaður eggvopni. Vísir/Vilhelm
Mikið mæddi á Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt því alls komu áttatíu mál inn á borð til hennar frá klukkan sjö í gærkvöldi til hálf sex í morgun. Sjö voru vistaðir í fangaklefa eftir nóttina.

Í dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að mikið var um akstur undir áhrifum vímuefna og almennum látum vegna ölvunar og slagsmála í miðbænum.

Meðal þeirra sem þurfti að vista í fangageymslu lögreglu var kona sem hafði í hótunum við lögreglu. Konan var handtekin í Breiðholtinu sökum ölvunar en hún neitaði að greina frá nafni sínu.

Þá var maður í annarlegu ástandi handtekinn fyrir utan skemmtistað í miðborginni þar sem hann var til vandræða. Hann reyndist vera með fíkniefni meðferðis. Maðurinn var vistaður í fangaklefa lögreglu.

Lögregla hafði afskipti af þremur ungum drengjum sem höfðu skemmt bifreið í Breiðholti. Málið var afgreitt með aðkomu foreldra og barnaverndar.

Ökumaður var stöðvaður í Kópavogi. Hann reyndist vera undir áhrifum vímuefna og keyrði án þess að hafa ökuréttindi. Viðkomandi var með fíkniefni á sér og vopnaður eggvopni. Maðurinn var látinn laus að skýrslu- og sýnatöku lokinni.

Þá var annar maður handtekinn í Kópavogi vegna líkamsárásar. Sá var vistaður í fangageymslu lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×