Innlent

Veittist að lögreglu og öryggisverði á bráðamóttökunni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Alls voru 56 mál bókuð hjá lögreglu frá klukkan fimm síðdegis og þangað til fimm í morgun.
Alls voru 56 mál bókuð hjá lögreglu frá klukkan fimm síðdegis og þangað til fimm í morgun. Vísir/vilhelm
Óskað var eftir aðstoð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi á tíunda tímanum í gærkvöldi vegna manns í annarlegu ástandi sen var þar með læti. Við afskipti veittist hann að og hrækti á öryggisvörð og lögreglu. Hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Á áttunda tímanum var tilkynnt um innbrot og þjófnað úr heimahúsi í Breiðholti. Þar var ýmsum smámunum stolið. Málið er í rannsókn.

Þá hafði lögregla hendur í hári tveggja ungra kvenna í Breiðholti á fimmta tímanum í morgun en þær höfðu brotist inn í bíla í hverfinu. Konurnar voru í annarlegu ástandi og með þýfi í fórum sínum. Þær voru handteknar og vistaðar í fangageymslu.

Alls voru 56 mál bókuð frá klukkan fimm síðdegis og þangað til fimm í morgun. Sex ökumenn voru handteknir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Þeir voru allir látnir lausir eftir sýnatöku nema einn sem var vistaður í fangageymslu. Sá hafði misst stjórn á bifreið sinni sem hafnaði á ljósastaur í Kópavogi um klukkan eitt í nótt. Bifreiðin var óökufær en ökumaður ómeiddur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×