Þetta kemur heim og saman við samtöl Vísis við foreldra fjögurra barnanna.
„Rannsóknir hafa sýnt að E. coli bakterían sem sýkti börnin finnst einnig í hægðasýni frá kálfum á staðnum. Ekki er vitað með vissu hvernig smitið barst í börnin en frekari rannsóknir á hugsanlegum smitleiðum á staðnum standa enn yfir,“ segir í tilkynningu Landlæknis.
„Heilbrigðiseftirlit Suðurlands og Matvælastofnun gripu til viðeigandi ráðstafana þann 4. júlí síðastliðinn í góðri samvinnu við staðarhaldara til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu bakteríunnar.“
Sölvi Arnarsson, framkvæmdastjóri ferðaþjónustunnar í Efsta-Dal, var upptekinn á fundi þegar fréttastofa heyrði í honum en ætlaði að svara spurningum að fundi loknum.
Eini sameiginlegi áfangastaðurinn
Vísir hefur í morgun rætt við foreldra fjögurra barna sem öll hafa greinst með sýkingu af völdum E.coli bakteríunnar. Öll eiga börnin það sameiginlegt að hafa ferðast um Bláskógabyggð á síðustu vikum og veiktist það fyrsta annan í hvítasunnu, 10. júní síðastliðinn. Öll hafa þau að sama skapi þurft að leggjast inn á Landspítalann, í lengri eða skemmri tíma.
Á Efstadal er margvíslegur rekstur. Þar má til að mynda finna vinsæla ísbúð, veitingastað, hestaleigu, hótelgistingu auk þess sem gestir geta klappað hinum ýmsu húsdýrum. Foreldrarnir segja að börn sín hafi borðað ís og klappað kálfum á Efstadal, en hvorki gist þar né neytt annars matar. Því beinist grunur þeirra helst að ísnum og húsdýrunum, aðspurð um mögulega smitvalda.
Eftir því sem Vísir kemst næst hafa fulltrúar sóttvarnalæknis og Matvælastofnunar heimsótt Efstadal, rétt eins og aðra staði í Bláskógabyggð, reglulega á síðustu vikum. Tekin hafa verið sýni úr matnum sem seldur er á staðnum sem ekki hafi gefið tilefni til róttækra aðgerða. Þannig eru bæði veitingahúsið og ísbúðin ennþá opin. Hins vegar hefur aðgangur verið takmarkaður að húsdýrum.
Litið mjög alvarlegum augum
Landlæknir hvetur einstaklinga sem heimsóttu ferðaþjónustuna á síðastliðnum tveimur vikum og fengu niðurgang innan 10 daga frá heimsókninni til að leita til síns læknis varðandi nánari greiningu. Einkennalausir einstaklingar sem heimsótt hafa Efstadal II þurfa ekki að leita læknis né heldur einstaklingar sem fengið hafa niðurgang sem nú er genginn yfir.„Allir aðilar sem að þessu máli hafa komið vilja ítreka að litið er á þessa sýkingahrinu af völdum E. coli mjög alvarlegum augum og hafa allir lagt sig fram um að upplýsa þetta mál og gripið til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir frekara smit. Þessi atburður gefur einnig tilefni til að árétta mikilvægi almenns hreinlætis og handþvottar við meðhöndlun matvæla og eftir umgengni við dýr, sérstaklega þegar börn eiga í hlut.“