Olga Steinunn bloggaði um baráttu sína lengi vel og enduðu allar færslur hennar á orðunum fuck cancer.
„Mér finnst þetta mjög viðeigandi, því þetta er fokking fokk,“ sagði Olga Steinunn í þættinum Flúr & Fólk á stöð 2 í janúar 2017. Þar sýndi hún fólki nýja húðflúrið sem var fallegt blóm.
Olga Steinunn tók þátt í átaki Bleiku slaufunnar árið 2018 en um er að ræða árlegt átak Krabbameinsfélagsins í október þar sem vakið er athygli á baráttu kvenna við krabbamein og mikilvægi þess að fara í skoðun. Hún sagði mikilvægt að velta dauðanum fyrir sér og ræða hann.
Betri umgjörð þurfi fyrir börn veikra foreldra
„Sérstaklega þegar hann hangir svona fyrir ofan mig og andar ofan í hálsmálið á mér og fjölskyldunni. Ég sætti mig auðvitað ekki við að deyja og hræðist það á vissan hátt, en ég vil eiga góð ár framundan. Mér finnst líka mikilvægt að ræða um dauðann við lífsförunautinn og fara yfir helstu óskir manns.“Þá vöktu Olga Steinunn og Gísli Álfgeirsson, eiginmaður hennar, athygli á að betri umgjörð þurfi fyrir börn veikra foreldra í kvöldfréttum Stöðvar 2 fyrir tveimur mánuðum.
„Við tölum um dauðann og það að deyja og reynum svolítið að lifa lífinu eins og það er, þótt það geti verið ömurlegt og gott inni á milli,“ sagði Gísli og ráðlagði foreldrum í sömu stöðu að gera slíkt hið sama.
Mikilvægt að segja börnunum satt
„Alltaf bara segja satt, vera heiðarlegur, svara spurningum, vera hreinskilinn og opinn eins og hægt er og þú vilt. Gefa sér tíma þegar barnið þarf að spyrja.“Þá segir Olga það sérstaklega mikilvægt að svara spurningum barnanna þar sem þau munu geta í eyðurnar sem hjálpi ekki til.
„Ef að þeim er ekki svarað þá geta þau í eyðurnar og þessar eyður sem þau geta í eru kannski kolrangar,“ sagði Olga og benti á að hugmyndaflug barna gæti oft leitt þau á villigötur. Þau færu að kenna sér sjálfum um fráfall foreldris.
„Við verðum að vera það hreinskilin við þau að þau skilji.“
Mikilvægt sé að huga að börnum sem missi foreldra. Áfallið hjá barninu komi oft ekki fyrr en nokkrum mánuðum seinna. Til þurfi að vera áætlun hvernig eigi að bregðast við til að hjálpa börnunum í þeirri stöðu.