Erlent

Trump og sendiherra Bretlands í hár saman

Sylvía Hall skrifar
Trump og Darroch eru ekki par sáttir við hvor annan.
Trump og Darroch eru ekki par sáttir við hvor annan. Vísir/Getty
Kim Darroch, sendiherra Bretlands í Bandaríkjunum, er harðorður í garð Bandaríkjaforseta og segir hann og stjórn hans vera vanhæfa, klunnalega og óstarfhæfa. Þetta kemur fram í minnisblöðum sendiherrans sem lekið var til breska dagblaðsins Mail on Sunday.

Minnisblöðin eru frá árinu 2017 til dagsins í dag og þar segir sendiherrann Trump meðal annars „geisla af óöryggi“ og ráðleggur ráðamönnum í London að eiga við hann á skilvirkan hátt. Það þurfi að einfalda hlutina og jafnvel segja þá í fullri hreinskilni.

Þá sagðist sendiherrann ekki vera bjartsýnn á framhaldið. Í einu minnisblaðinu segir Darroch að fáir hafi trú á því að hlutirnir muni breytast til hins betra.

„Við höfum eiginlega ekki trú á því að þessi stjórn verði eitthvað eðlilegri; minna óstarfhæf; minna ófyrirsjáanleg; minni flokkaátök; minna klunnaleg og klaufsk,“ skrifaði hann.

Jeremy Hunt segir skoðanir Darroch ekki vera samhljóma skoðunum hans.Vísir/Getty

Trump nýtur stuðnings bresku ríkisstjórnarinnar 

Blaðamenn spurðu Trump út í ummælin í dag og bar hann sendiherranum ekki vel söguna. Hann sagði Darroch ekki hafa þjónað Bretlandi vel sem sendiherra en Darroch hefur gegnt stöðu sendiherra síðan í janúar árið 2016.

„Sendiherrann hefur ekki þjónað Bretlandi vel, ég get sagt þér það. Við erum ekki miklir aðdáendur þessa manns. Ég gæti sagt hluti um hann, en ég nenni því ekki,“ sagði Trump.

Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, segir ummælin í minnisblöðunum vera persónulegar skoðanir Darroch en ekki skoðun bresku ríkisstjórnarinnar né hans. Þau séu afar sátt við samskipti ríkisstjórnarinnar og Trump.

„Okkur finnst enn að undir stjórn Trump Bandaríkjaforseta sé stjórn Bandaríkjanna ekki aðeins mjög skilvirk heldur einnig besti mögulegi vinur Bretlands á hinu alþjóðlega sviði,“ sagði Hunt.

Utanríkisráðuneyti Bretlands hefur fullyrt að lekinn verði rannsakaður en á sama tíma væri mikilvægt að sendiherrar gætu útvegað ráðherrum hreinskilið mat á stjórnmálum þess lands sem þeir störfuðu í.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×