Innlent

Löggan á Suðurnesjum aldrei stoppað jafn ölvaðan mann

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögreglumenn höfðu aldrei séð aðra eins tölu.
Lögreglumenn höfðu aldrei séð aðra eins tölu. Vísir
Hann var búinn að fá sér í allar tærnar ökumaðurinn sem lögreglumenn á Suðurnesjum þurftu að hafa afskipti af í umdæminu í hádeginu í gær. Borist hafði tilkynning um rásandi aksturslag bifreiðar og fylgdi skráningarnúmer ökutækisins.

Lögreglan stöðvaði för ökumannsins og ræddu við hann. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að ljóst hafi verið um leið að ökumaðurinn væri alls ekki í standi til að aka bíl. Raunar væri hann ekki í standi til að vera á fótum.

Manninum var tilkynnt að hann væri handtekinn grunaður um ölvun við akstur og beðinn um að blás í áfengismæli. Mælirinn sýndi hvorki meira né minna en 4,1 prómill. Samkvæmt nýjum umferðarlögum er hámark leyfilegs magns í blóði 0,2 prómill þótt sú breyting sé ekki gengin í gegn. Viðmiðið er enn 0,5 prómill.

Vakthafandi lögreglumenn, sem nokkrir eiga tugi ára að baki í lögreglu, höfðu aldrei séð aðra eins tölu á áfengismælinum og vonast til að sjá hana aldrei aftur. Ökumaður þessi á von á ansi langri ökuleyfissviptingu og svimandi hárri sekt.

Á vef Félags bifreiðaeigenda má sjá viðmið varðandi ölvunarakstur. Þar segir að þegar magn vínanda í blóði er yfir 4,0 prómill séu áhrif á aksturshæfni á þann veg að viðkomandi geti verið meðvitundarlaus, viðbragð takmarkað, ökuhæfni engin, viðkomandi jafnvel sofnaður eða dáinn áfengisdauða. Viðkomandi hafi líklega innbirt 15-20 drykki.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×