Enski boltinn

Fyrirliði Evrópumeistara Liverpool með nýtt húðflúr og fær líka að heyra það

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jordan Henderson með Meistaradeildarbikarinn sem verður hér eftir alltaf "hluti af honum“.
Jordan Henderson með Meistaradeildarbikarinn sem verður hér eftir alltaf "hluti af honum“. Getty/Marc Atkins
Jordan Henderson komst í úrvalshóp í Madrid 1. júní síðastliðinn þegar hann lyfti Meistaradeildarbikarnum eftir sigur Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Aðeins fjórir aðrir leikmenn Liverpool hafa lyft þessum eftirsótta bikar eða þeir Emlyn Hughes (1977, 1978), Phil Thompson (1981), Graeme Souness (1984) og Steven Gerrard (2005).

Henderson ákvað að minnast þessa miklu tímamóta með sérstökum hætti. Hann mætti á húðflúrstofu með ákveðna ósk.





Jordan Henderson vildi fá Meistarabikarinn húðflúraðan á vinstra lærið og fékk það eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan.

Henderson kom til Liverpool frá Sunderland árið 2011 en hann var þá bara tvítugur. Enginn leikmaður Liverpool í dag hefur verið lengur hjá félaginu. Jordan Henderson tók við fyrirliðabandinu af Steven Gerrard og var búinn að bíða lengi eftir því að fá að lyfta bikar. Liverpool vann síðast titil tímabilið 2011-12 og hafði tapað þremur úrslitaleikjum á síðustu þremur tímabilum.

Nú fékk Henderson loksins að upplifa það að stíga fram og taka við bikar. Þetta var án vafa stærsta stundin hans á ferlinum og kappinn var klökkur í viðtölum eftir leik. Jordan Henderson ætlaði að vera öruggur með að gleyma ekki þessum degi og þetta húðflúr ætti að sjá til þess.

Henderson hefur hins vegar fengið á sig talsverða gagnrýni á samfélagsmiðlum fyrir uppátækið og margir hafa látið hann heyra það. Gagnrýnendum hans finnst þetta full mikið af sjálfshreykni og rembingi. Þeim finnst að fyrirliði Evrópumeistaranna eigi að sýna meiri auðmýkt.

Aðrir hafa líka bent á það að hægra lærið er nú laust fyrir húðflúr af Englandsbikarnum takist Liverpool að vinna hann í vetur eftir þrjátíu ára bið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×