Erlent

Hunt sagði gjaldþrot fyrirtækja geta verið nauðsynlega fórn fyrir Brexit

Eiður Þór Árnason skrifar
Formannsbaráttan fer harðnandi innan Íhaldsflokksins.
Formannsbaráttan fer harðnandi innan Íhaldsflokksins. Vísir/AP
Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands sem berst nú um formannssæti breska Íhaldsflokksins, sagði í viðtali það vera nauðsynlega fórn ef til þess kæmi að fyrirtæki þar í landi yrðu gjaldþrota í kjölfar þess að Bretland færi úr Evrópusambandinu án samnings. The Guardian greinir frá þessu.

Hunt sagði jafnframt að ef ný áætlun um útgöngu Breta væri óframkvæmanleg í byrjun október á þessu ári myndi hann taka þá afstöðu að Bretland ætti að fara úr Evrópusambandinu án samnings.

Þessi ummæli marka stefnubreytingu hjá frambjóðandanum sem hefur lengi varað við þeim mögulega skaða sem gæti hlotist ef sú leið yrði fyrir valinu. Áður var það yfirlýst stefna hans að hann myndi einungis sækjast eftir því að fara úr sambandinu án samnings ef það reyndist raunverulega eini valkosturinn sem Bretland hefði til að draga sig úr sambandinu.

Er stefnubreytingin talin marka harðnandi kosningabaráttu um formannssætið og að Hunt sé með þessu að reyna að höfða til stuðningsmanna andstæðings síns Boris Johnson, sem hefur fram að þessu rekið mun harðari Brexit-stefnu en Hunt. Johnson er talinn mun líklegri til þess að hreppa formannssætið þegar niðurstaða póstkosningar verður tilkynntar þann 22. júlí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×