Innlent

Ó­víst hvort starfs­menn Reykja­víkur­borgar njóti á­fram styttri vinnu­viku

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Elín Oddný Sigurðardóttir er formaður stýrihóps um styttingu vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg.
Elín Oddný Sigurðardóttir er formaður stýrihóps um styttingu vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg.
Óvíst er hvort að starfsmenn Reykjavíkurborgar muni áfram njóta styttri vinnuviku. Verkefni um styttingu vinnuvikunnar lýkur í lok sumars og eru kjarasamningar lausir og því óvissa um framhaldið.

Vorið 2014 samþykkti borgarstjórn að stofnaður yrði starfshópur með það að markmiði að útfæra tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar. Árið 2017 var ákveðið að fara í annan áfanga verkefnisins og stendur hann til 31. ágúst næstkomandi.

Formaður stýrihóps verkefnisins segir að nú sé óljóst hvort starfmenn muni enn njóta styttri vinnuviku.

„Núna er framhaldið ákvarðað í kjarasamningum hjá viðsemjendum borgarinnar og kjaranefndinni sem er með umboð til samninga fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Þannig það verður leyst á þeim vettvangi með framhaldið á þessu verkefni,“ sagði Elín Oddný Sigurðadóttir, formaður stýrihóps Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuvikunnar. 

Að hennar sögn hefur ríkt gríðarleg ánægja með verkefnið innan borgarinnar. 

„Það er merkjanleg meiri starfsánægja og betri líðan í starfi og minni álags og streitueinkenni. Þannig ég held að árangurinn geti talist nokkuð góður af þessu. Ég held að það sé svona ákall samfélagsins um meiri sveignaleika í starfi og því að geta sinnt fjölskyldu og tómstundum utan vinnutíma. Ég held að það sé orðið ákall í samfélaginu um það almennt,“ sagði Elín Oddný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×