Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er í 17. sæti á nýjum styrkleikalista FIFA. Ísland fer upp um fimm sæti frá því listinn var síðast gefinn út.
Frá því listinn var gefinn síðast út, 29. mars, hefur Ísland leikið fjóra leiki; unnið tvo og gert tvö jafntefli.
Ísland hefur ekki verið jafn ofarlega á styrkleikalistanum síðan 2016.
Heimsmeistarar Bandaríkjanna eru áfram á toppi listans. Þeir eru með 2180 stig, 121 stigi á undan Þýskalandi. Aldrei hefur verið jafn mikill munur á tveimur efstu liðum styrkleikalistans.
Holland, silfurliðið á HM, fer upp um fimm sæti og í það þriðja. Frakkland er í 4. sæti, England í því fimmta og Svíþjóð, bronsliðið á HM og mótherji Íslands í undankeppni EM 2021, fer upp um þrjú sæti og í það sjötta.
Japan, sem féll út í 16-liða úrslitunum á HM, fer niður um fjögur sæti. Norður-Kórea tekur sæti Japans á meðal tíu efstu liða listans.
Ungverjaland og Slóvakía, sem Ísland er með í riðli í undankeppni EM, eru í 45. og 47. sæti styrkleikalistans. Lettland er í 93. sæti.
Styrkleikalistann í heild sinni má sjá með því að smella hér.
