„Margir þátttakendur í kökuskreytingakeppninni leggja sig alla fram, koma með eigin matarlit og hafa skorið út úr sykurmassa. Það má koma með ýmislegt í keppnina, eigið skraut og fleira,“ segir Þórdís Þórsdóttir, sérgreinastjóri í kökuskreytingum á Unglingalandsmóti UMFÍ, í fréttatilkynningu frá UMFÍ.
Keppni í kökuskreytingum var ein af nýju greinunum sem boðið var upp á í fyrsta sinn á Unglingalandsmótinu á Egilsstöðum árið 2017. Greinin sló í gegn og fjölmenntu metnaðarfullir þátttakendur á aldrinum 11-18 ára í keppnina. Aftur var keppt í kökuskreytingum í Þorlákshöfn í fyrra og nú um verslunarmannahelgina á Höfn. Þátttakendur leggja margir ekki aðeins metnað í kökuskreytingarnar heldur mæta líka margir í flottum búningum.
Þemað í kökuskreytingakeppninni í ár er í samræmi við Hornafjörð en keppendur eiga að vinna með jökla.

Þórdís er sjálf reynslubolti í kökuskreytingum og kenndi heimilisfræði í grunnskólanum á Höfn. „Ég baka mínar kökur sjálf og hef ástríðu fyrir því að skreyta kökur. Ég hef gerð þær margar og eru ánægðust með Barbie-kökur, sem eru líka erfiðustu kökurnar sem ég hef gert,“ segir hún.

Á mótinu er boðið upp á keppni í fjölmörgum greinum. Þær eru biathlon, sem margir þekkja sem hlaupaskotfimi, bogfimi, fimleikalíf og fimleikar, frisbígolf, frjálsar íþróttir, íþróttir fatlaðra, glíma, golf, götuhjólreiðar, knattspyrna, kökuskreytingar, körfubolti, motocross, pílukast, skák, stafsetning, strandblak, strandhandbolti, sund og upplestur.
Heilmikið verður í boði á Höfn alla mótsdagana. Öll kvöld verða svo tónleikar í samkomutjaldi við sundlaugina á Höfn. Þar koma fram DJ Sura, Úlfur Úlfur, Salka Sól, Briét, Daði Freyr, GDRN og Una Stef & The SP 74.