Innlent

Vopnað rán í Reykjavík: Einn í gæsluvarðhaldi eftir umfangsmiklar aðgerðir lögreglu og sérsveitar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skotvopnið, sem reyndist vera eftirlíking af skammbyssu, er í vörslu lögreglu.
Skotvopnið, sem reyndist vera eftirlíking af skammbyssu, er í vörslu lögreglu. Vísir/vilhelm
Karlmaður á þrítugsaldri var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í gæsluvarðhald til 23. ágúst næstkomandi. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór fram á gæsluvarðhaldið á grundvelli almannahagsmuna í þágu rannsóknar á vopnuði ráni í austurborginni síðdegis í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.

Á sjötta tímanum í gær var lögreglu tilkynnt um að manni hefði verið ógnað með skotvopni og hann rændur verðmætum. Lögreglan brást skjótt við og stóðu aðgerðir fram á nótt með aðstoð sérsveitar ríkislögreglustjóra.

Fjórir voru handteknir í tengslum við málið í gærkvöldi. Þremur mannanna var sleppt úr haldi lögreglu fyrr í dag en lögð var fram krafa um gæsluvarðhald yfir þeim fjórða eins og áður segir. Framkvæmdar hafa verið tvær húsleitir í þágu rannsóknarinnar. Skotvopnið, sem reyndist vera eftirlíking af skammbyssu, er í vörslu lögreglu.

Ekki verða veittar frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×