Hátíðin verður haldin í fjórða sinn á Klambratúni á sunnudaginn frá klukkan ellefu til fimm og búast skipuleggjendur við miklum fjölda gesta. „Fyrsta árið mættu á milli tólf og fimmtán hundruð manns á hátíðina og svo hefur fjöldi gesta margfaldast í gegnum árin. Í fyrra voru um 4.000 gestir,“ segir Særós.

Dagskrá hátíðarinnar er sniðin að börnum og var mikið lagt upp úr því að allir finni eitthvað við sitt hæfi þegar dagskráin var sett saman. „Við erum með skiptiaðstöðu og aðstöðu þar sem er hægt að gefa brjóst í næði. Fyrir yngstu börnin erum við til dæmis með kósítjöld og fyrir þau eldri hjólabrettasvæði og þrautabrautir. Svo alls konar tónlistaratriði, andlitsmálun og ýmsar smiðjur þar sem krakkarnir geta tekið þátt,“ segir Hildur Soffía.
„Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð frá foreldrum sem tala um að þarna loksins finni þeir stað þar sem allir finni eitthvað við sitt hæfi,“ bætir Hildur Soffía við.
„Það er svo margt í gangi fyrir fullorðna á sumrin, alls konar hátíðir úti um allt. En börn hafa fengið lítið pláss í menningunni og það er lítið að gera fyrir þau á sumrin svo þetta er svona okkar leið til að svara því kalli,“ segir Særós.
Særós og Hildur Soffía eru sammála um að líklega sé um friðsælustu útihátíð landsins að ræða. Markhópurinn sé fjölskyldan og markmiðið sé að njóta samverunnar. „Það er ekki drukkinn bjór eða annað áfengi á svæðinu og við leyfum ekki reykingar svo þetta er mjög fjölskylduvænt og að okkar mati fallegasta hátíðin, þar sem fjölskyldan á góðan dag saman í rólegheitunum á afslöppuðu grænu svæði.“
Fólk er hvatt til þess að taka með sér teppi og nýta svæðin og afþreyinguna sem í boði er á svæðinu.