Erlent

Ætla að halda mótmælum í Moskvu ótrauð áfram

Kjartan Kjartansson skrifar
Navalní, leiðtogi rússnesku stjórnarandstöðunnar, var leiddur út í járnum í gærkvöldi, sakaður um að hvetja til ólöglegra mótmæla.
Navalní, leiðtogi rússnesku stjórnarandstöðunnar, var leiddur út í járnum í gærkvöldi, sakaður um að hvetja til ólöglegra mótmæla. Vísir/EPA
Stjórnarandstæðingar í Rússlands segjast ætla að halda sig við áform um frekari mótmæli í Moskvu um helgina þrátt fyrir að stjórnvöld hafi ekki veitt leyfi fyrir þeim og að lögreglan hafi handtekið nokkra leiðtoga þeirra í nótt, þar á meðal Alexei Navalní.

Fjölmenn mótmæli gegn ríkisstjórn Vladímírs Pútín forseta voru haldin í Moskvu um liðna helgi. Kröfðust mótmælendur frjálsra kosninga og að frambjóðendur sem kjörstjórn hafði vísað frá yrði leyft að bjóða sig fram til borgarstjórnar Moskvu í september.

Navalní, sem hefur verið einn helsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar undanfarin ár, var handtekinn í gærkvöldi og úrskurðaður í þrjátíu daga fangelsi fyrir að hvetja til ólöglegra mótmæla um helgina. Stuðningsmenn hafa sent frá sér skilaboð um að mótmælin fari fram, sama á hverju tauti og rauli, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Kjörstjórn ógilti framboð nokkurra frambjóðenda stjórnarandstöðunnar á þeim forsendum að þeir hefðu ekki skilað inn tilskildum fjölda gildra undirskrifta til stuðnings framboðanna. Því hafna frambjóðendurnir og fullyrða að þeim sé meina að bjóða sig fram gegn fulltrúum sem styðja Pútín forseta.

Navalní sjálfum var bannað að bjóða sig fram gegn Pútín til forseta í fyrra vegna umdeilds dóms sem hann hlaut fyrir fjárglæpi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×