Þverpólitískur hópur þingmanna bauð Thunberg að koma fyrir þingnefnd í dag. Hún ætlar jafnframt að fylgjast með þingfundi á þingpöllum.
Heimsókn Thunberg hugnast ekki þingmönnum úr íhaldsflokkinum Repúblikönunum og hægriöfgaflokknum Þjóðfylkingunni. Að sögn Reuters-fréttastofunnar ætla þeir að sniðganga táninginn þegar hún heimsækir þingið.
„Ég bið félaga mína um að sniðganga Gretu Thunberg. Við þurfum ekki á heimsendaspámönnum að halda,“ tísti Guillaume Larrive sem er framboði til formanns Repúblikananna.
„Þið getið ekki fengið Jóhönnu af Örk loftslagsbreytingar í salinn þegar þingið greiðir atkvæði um viðskiptasamning Evrópusambandsins og Kanada,“ sagði Jordan Bardella, Evrópuþingmaður Þjóðfylkingarinnar.
Brune Poirson, aðstoðarumhverfisráðherra Frakklands, gaf lítið fyrir gagnrýni hægrimannanna.
„Að sniðganga ræðu sextán ára gamallar stúlku, hvað eru þeir hræddir við?“ spurði hann.
Skotspónn íhaldsmanna á Íslandi og víðar
Thunberg vakti heimsathygli þegar hún fór í svonefnt skólaverkfall fyrir loftslagið, vikuleg mótmæli til að krefjast loftslagsaðgerða, í fyrra. Milljónir barna og ungmenna um allan heim hafa síðan fylgt fordæmi hennar, þar á meðal íslensk börn.Boðskapur Thunberg hefur farið fyrir brjóstið á íhaldsmönnum víða um heim sem eru andsnúnir aðgerðum til að stöðva loftslagsbreytingar af völdum manna. Hefur hún sætt árásum úr þeim ranni sem hafa stundum beinst að þeirri staðreynd að hún er á einhverfurófi.
Íslenskir íhaldsmenn hafa tekið þátt í þeim árásum. Í nafnlausum dálki í Viðskiptablaðinu í maí var Thunberg uppnefnd „heilög Greta“ og hún sökuð um að leiða nýja „barnakrossferð“. Útvarp Saga hafði þá áður birt grein þar sem Thunberg var sögð handbendi George Soros, bandarísk-ungverska auðkýfingsins, sem hefur verið grýla hægriöfgaafla.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Miðflokksins, vísaði til Thunberg í grein sem hann skrifaði Morgunblaðið í gær. Þar sagði hann kröfur hennar og barna í skólaverkföllum „fullkomlega óraunhæfar“.
„Það þora bara fáir að segja það. Það er auðveldara að lofa börnin fyrir framtakið og það að skrópa í skóla,“ skrifaði hann.