Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, hvatti í dag Íran til að láta af „ólöglegri“ hertöku ólíuskipsins Stena Impero sem siglir undir breskum fána.
Mikill þungi er að færast í deilu Breta og Írana eftir að stjórnvöld í Íran hertóku olíuskipið Stena Impero í gær. Tuttugu og þriggja manna áhöfn er um borð í skipinu sem komin er til hafnar í Bandar Abbas í Íran. Skipið er í eigu sænska fyrirtækisins Stena Bulk en siglir undir breskum fána.
Hunt segir að aðgerðir Írana veki upp alvarlegar spurningar um öryggi breskra og alþjóðlegra flutningaskipa sem sigli í gegnum Hormússund.
Stjórnvöld í Tehran segja að skipið hafi siglt á fiskibát í Hormússundi og hafi áhöfn þess báts reynt að ná sambandi við skipstjóra olíuskipsins en án árangurs. Þá létu þeir hafnaryfirvöld í Bandar Abbas vita og í kjölfar þess fóru liðsmenn íranska byltingavarðarins um borð og yfirtóku skipið.
Hunt vill hins vegar meina að hertaka Stena Impero sé svar íranskra stjórnvalda við aðgerðum í Gíbraltar þar sem för íransks olíuskips var stöðvuð fyrr í mánuðinum, en áhöfn þess var sökuð um að reyna að smygla olíu til Sýrlands sem teldist brot á efnahagslegum refsiaðgerðum Evrópusambandsins.
Þjóðaröryggisráð Bretlands kom saman í gærkvöldi vegna málsins og sagði utanríkisráðherra landsins, Jeremy Hunt, í gærkvöldi að það komi til með að hafa alvarlega afleiðingar láti írönsk stjórnvöld ekki skipið laust. Hann hefur meðal annars rætt málið við starfsbróður sinn í Bandaríkjunum, Mike Pompeo.
Utanríkisráðherra Bretlands hvetur Íran til að láta af "ólöglegri“ hertöku
Tengdar fréttir

Upptökur af því þegar Íranir hertóku olíuflutningaskip birtar
Mynd- og hljóðupptökur hafa komið fram frá því að íranski byltingarvörðurinn hertók flutningaskip sem siglir undir bresku flaggi á föstudag.

Breska skipið komið til hafnar í Íran
Utanríkisráðherra Bretlands segir að afleiðingarnir verði alvarlegar skili írönsk stjórnvöld ekki olíuskipi sem þeir hertóku í gær.

Íranir hertóku tvö bresk olíuskip
Utanríkisráðherra Bretlands hefur lýst yfir miklum áhyggjum eftir að Íranir hertóku tvö bresk olíuskip í Hormússundi í dag.