Skoðun

Áfallaþykkni

Kolbeinn Marteinsson skrifar
Haustið 1995 flutti ég aftur í foreldrahús í nokkra mánuði eftir þvæling erlendis. Ég vann þennan veturinn eins og skepna til að borga skuldir og halda á ný út. Eitt hádegið fór ég í mat heim í Kópavoginn. Þar var enginn friður og mér lenti eitthvað saman við móður mína og úr varð að ég rauk út og ákvað að bíða félaga míns í Hamraborginni. Þar var skítkalt og því var ráðið að bíða í verslun Nóatúns.

Þar var búið að stafla upp mannhæðarháum píramída af Sunquick-appelsínuþykkni sem væntanlega var á einhvers konar tilboði. Til að gera þessa sögu enn verri var hver flaska af þykkni inni í glerkönnu.

Næsta sem gerðist var að ég gekk beint inn í appelsínuþykknispíramídann utangátta. Fyrst riðlaðist hann til á meðan ég reyndi að afstýra stórslysi og svo byrjuðu flöskurnar innan í könnunum að hrynja niður og pýramídinn féll í gólfið með háværum brothljóðum. Allt gerðist þetta óvenjuhægt fyrir augum mínum líkt og í draumi. Næst heyrði ég einhvern segja: „Já, hann gekk bara beint á þetta eins og hann væri á einhverjum lyfjum.“ Upp gaus stæk appelsínulykt úr sístækkandi sírópspolli, síhækkandi hróp og köll og fólk fór að drífa að.

Við þessar aðstæður stóð ég sem lamaður og mér var heitt í framan. Við svona aðstæður er tvennt í stöðunni. Bjóða fram aðstoð eða flýja. Ég valdi seinni kostinn. Þetta hafði langvarandi afleiðingar. Ég fór ekki í verslun Nóatúns í Hamraborg í mörg ár á eftir. Og enn þann dag í dag þegar ég finn lykt af appelsínuþykkni upplifi ég aftur þessa lamandi skelfingu og heyri flöskur brotna í höfði mínu. Starfsfólk Nóatúns í Hamraborg árið 1995 bið ég afsökunar, 24 árum síðar.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×