Innlent

Útlit fyrir þurrk næstu tíu daga

Birgir Olgeirsson skrifar
Þurr norðanaustanátt verður ríkjandi næstu tíu daga gangi spárnar eftir.
Þurr norðanaustanátt verður ríkjandi næstu tíu daga gangi spárnar eftir. Vísir/Vilhelm
Háþrýstisvæði verður hér ríkjandi fram yfir helgi og jafnvel lengur. Norðaustanátt er spáð í framhaldinu og hún af fremur þurru tagi. Þetta segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á vefnum Blika.is en þar fjallar hann um tvö kort úr tveimur ólíkum reiknilíkönunum sem bæði gefa til kynna að þurrt verði til 10. ágúst í það heila tekið á landinu.

Bandaríska reiknilíkanið gerir ráð fyrir uppsafnaðri úrkomu um eða innan við 5 millimetra þessa tíu daga í spánni. Ef spáin gengur eftir fellur vart dropi á Vestfjörðum og en verulega uppsafnaða úrkomu er hins vegar að sjá austur yfir Atlantshaf á breiðu belti suður undan og inn yfir Bretlandseyjar og meginland Evrópu. Eins nánast alveg þurrt á Grænlandi og væntanlega sólríkt einnig, skrifar Einar.

Evrópska líkanið gerir ráð fyrir 0 til 25 prósentum af meðalúrkomu hér við land en þó stutt í vætu suður af landinu.

„Þessi spá er afar eindregin hvernig sem á það er litið! Til samanburðar er rétt að hafa í huga að 10 daga úrkoma á þessum tíma er að jafnaði um 10 mm þar sem þurrast er upp í 30 mm suðaustanlands,“ skrifar Einar á vef sinn Blika.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×