„Velkominn til Liverpool, ha? Þetta hefur verið brjáluð vika. Ég er mjög glaður með sigurinn og ánægður fyrir hönd stuðningsmannanna,“ sagði spænski markvörðurinn Adrián eftir leik Liverpool og Chelsea í Ofurbikar Evrópu í Istanbúl í kvöld.
Liverpool vann í vítaspyrnukeppni, 5-4. Adrián varði síðustu spyrnu Chelsea í vítakeppninni frá Tammy Abraham.
Þetta var fyrsti leikur Adriáns í byrjunarliði Liverpool. Hann samdi við Liverpool á mánudaginn í síðustu viku eftir að hafa verið án félags síðan samningur hans við West Ham United rann út fyrr í sumar.
Adrián var ætlað að vera varamarkvörður fyrir Alisson Becker. Brassinn meiddist hins vegar í leiknum gegn Norwich City á föstudaginn og Adrián fékk þá sitt fyrsta tækifæri með Liverpool.
Spánverjinn byrjaði svo í markinu í kvöld. Hann fékk á sig vítaspyrnu í framlengingunni sem Jorginho skoraði úr og jafnaði í 2-2.
„Ég reyndi að stoppa þegar ég sá hann [Abraham] en framherjar eru svo klókir,“ sagði Adrián um vítið sem hann fékk á sig. Hann bætti heldur betur upp fyrir það með því að verja frá Abraham í vítakeppninni.
Þetta er fyrsti titilinn sem Adrián, sem er 32 ára, vinnur á ferlinum. Hann er frá Sevilla og hóf ferilinn með Real Betis. Adrián fór til West Ham 2013 þar sem hann lék í sex ár. Hann lék 150 leiki fyrir West Ham í öllum keppnum.
Hetjan Adrián: „Þetta hefur verið brjáluð vika“

Tengdar fréttir

Sjáðu Klopp líkja eftir Rocky: Adriannnn!
Jürgen Klopp ákallaði Adrian eftir leikinn gegn Chelsea í kvöld, líkt og Rocky Balboa gerði í Óskarverðlaunamynd fyrir 43 árum.

Adrián hetjan þegar Liverpool vann Ofurbikarinn í fjórða sinn | Sjáðu mörkin
Liverpool vann Chelsea í vítaspyrnukeppni í Ofurbikar Evrópu í Istanbúl í kvöld.