Innlent

Ferðalangar fylgist með veðurspám

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ætla má að gular viðvaranir verði viðvarandi fram á kvöld.
Ætla má að gular viðvaranir verði viðvarandi fram á kvöld.
Víða eru enn gular veðurviðvaranir í gildi, allt frá Vesturlandi að Norðurlandi eystra. Varað er við hvassviðri og rigningu, auskriðum og grjóthruni, og því ættu vegfarendur að fara með aðgát.

Þannig segir veðurfræðingur að búast megi við svalri norðanátt og rigningu á norðanverðu landinu í dag. Sums staðar geti jafnvel verið talsverð eða mikil úrkoma og slydda eða snjókoma til fjalla. Gera má ráð fyrir snjóþekju á fáeinum heiðarvegum á Norðausturlandi.

Úrhelli hefur gert nyrst á Tröllaskaga og er uppsöfnuð úrkoma á Siglufirði síðstu sex klukkustundinar tæpir 50 mm. Það dregur úr úrkomu norðaustan- og austanlands seinnipartinn, en bætir heldur í hana á Vestfjörðum og Ströndum.

„Þeir sem hyggja á ferðalög á norðanverðu hálendinu og á fjöllum nyrðra ættu því að fylgjast vel með veðurspám og búa sig eftir aðstæðum,“ segir veðurfræðingur.

Hitinn verður á bilinu 3-8 stig á Norður- og Austurlandi en skýjað og þurrt syðra og hiti 9 til 14 stig.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:

Norðaustan 8-15 m/s, hvassast á Vestfjörðum, en hægari vindur norðaustantil. Rigning með köflum, en þurrt og bjart sunnan- og vestanlands. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast á Suðurlandi.

Á miðvikudag:

Norðan og norðaustan 5-13 m/s. Skýjað á norðanverðu landinu og ringing með köflum norðaustantil, en bjart veður annarsstaðar. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast á Suðurlandi.

Á fimmtudag:

Suðaustan 5-10 en hægari austanlands. Skýjað með köflum og úrkomulítið. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast á Vesturlandi.

Á föstudag:

Austan 3-8 og skýjað með köflum, en austan 8-13 syðst á landinu og lítilsháttar væta. Hiti 9 til 16 stig, hlýjast vestanlands.

Á laugardag:

Austlæg átt og skýjað um austanvert landið en bjart veður vestantil. Hlýnar heldur í veðri.

Á sunnudag:

Útlit fyrir fremur hægar norðaustanátt og þurru veðri. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast vestantil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×