Um þúsund manns hafa neyðst til að flýja heimili sín á Gran Canaria vegna eldanna. Um 850 þúsund manns eru búsettir á eyjunni, þar af nokkur fjöldi Íslendinga. Eldarnir hafa reynst slökkviliði erfiðir vegna mikils hita og óhagstæðrar vindáttar. Talið er að þeir hafi kviknað vegna gáleysis manns sem fór ógætilega með logsuðutæki.

Elín segist í samtali við Vísi hafa orðið fyrst vör við eldana um hádegisbil í gær þegar hún kom auga á mikinn reyk í grennd við sumarbústaðinn.
„Síðan ágerðist þetta. Við erum með stíflu rétt hjá okkur sem þyrlurnar sækja vatn í,“ segir Elín. „Okkur datt ekki í hug að þetta yrði svona svakalega mikið.“
Þá hafi litið út fyrir að slökkviliðsmenn væru að ná tökum á eldinum í gærkvöldi. Það hafðist þó ekki, einkum vegna mikils vinds og óhagstæðrar vindáttar. Elín fór í háttinn um klukkan eitt í gærkvöldi, nokkuð óróleg, en mun fleiri eru á svæðinu en ella vegna hátíðahalda.
„Síðan var allt barið að utan hjá mér klukkan tvö og þá var það mágkona mín. Hún sagði að eldurinn væri kominn í kirkjuna í Juncalillo og að lögreglan óskaði eftir því að allir yfirgæfu svæðið.“

„Þetta var óhugnanlegt. Ég vil nú samt ekki gera þetta of dramatískt enda vorum við ekki í neinni hættu.“ Hún heldur jafnframt að bústaður þeirra eigi ekki á hættu að verða eldinum að bráð, enda passi þau vel að þurr gróður safnist ekki saman umhverfis hann.
En þurftu þau hjónin að skila eitthvað eftir sem var þeim kært?
„Já, kettina okkar. Við eigum einn persakött sem heitir Bartolo, ég kalla hann stundum prinsinn minn, hann fer alltaf með okkur á milli, fram og til baka. Hinir tveir ganga lausir upp frá en þeir eiga allir að vera í lagi. Svo erum við líka með ávaxta- og blómarækt.“

Þá sagði Þórunn Reynisdóttir forstjóri ferðaskrifstofunnar Úrvals útsýnar að eldarnir muni hvorki hafa áhrif á farþega né flugumferð og gætt sé vel að öryggi íslenskra ferðamanna á Kanaríeyjum.