Sigmundur gagnrýndi Bjarna í Facebook-færslu í dag fyrir það sem fram kom á fundi Sjálfstæðismanna sem fram fór í Valhöll í dag.
„Maður hefði haldið að formaður Sjálfstæðisflokksins, sá ágæti maður, myndi boða eitthvað nýtt í orkupakkamálinu fyrst blásið var til opins fundar í Valhöll. Í staðinn flutti hann gömlu línuna um að orkupakkinn hafi þegar verið orðinn til þegar ég var í ríkisstjórn,“ skrifaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á Facebook-síðu sinni.
„Jú pakkinn hafði lengi verið til en samt innleiddum við hann ekki. Auk þess heyrði málið ekki undir mig, ekki frekar en fjármálaráðherra á þeim tíma (hver sem það nú var).“

Með mætingu á fundinn hefði Sigmundur mögulega ekki „farið með rangt mál um efni fundarins“, einkum um það sem kom fram í máli Bjarna um stöðu orkupakkamálsins þegar Sigmundur var forsætisráðherra og samflokksmaður hans Gunnar Bragi Sveinsson var utanríkisráðherra, þá báðir í Framsóknarflokknum.
Vísar Bjarni í stefnu ríkisstjórnarinnar í minnisblöðum sem lögð voru fyrir þingið, sem finna má hér.
„Afstaða utanríkisráðuneytisins í tíð Gunnars Braga og Sigmundar Davíðs var sú að málið stæðist stjórnarskrá, að íslenskra hagsmuna hafi verið gætt í hvívetna og að ljúka bæri málinu með samþykkt í sameiginlegu EES nefndinni. Með öðrum orðum að stefnt skyldi að innleiðingu,“ skrifar Bjarni.
Þingið hafi skoðað málið í tveimur þingnefndum og samþykkt að málið héldi áfram. Þannig hafi stjórnarmeirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks verið sammála í málinu, sem var í framhaldinu afgreitt í sameiginlegu EES-nefndinni. Í því hafi falist fyrirheit um að innleiða málið í lög, „með eðlilegum fyrirvara um frekari aðkomu Alþingis“.
„Það er því rík innistæða fyrir því að segja þá tvo hafa algerlega skipt um skoðun í málinu og blekking eða í besta falli útúrsnúningur þegar Sigmundur Davíð segir í dag: „en við innleiddum hann ekki.“.“
Færslu Bjarna má sjá hér að neðan.