Rekstrarvandi Landspítalans hefur verið til umræðu að undanförnu. Til að mynda liggur fyrir að fjórum framkvæmdastjórum verði sagt upp auk þess tímabundnar ráðningar fimm annarra framkvæmdastjóra eru að renna sitt skeið á enda. Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar segir að rekstrarvandi spítalans verði tekinn fyrir á vettvangi nefndarinnar.
„Já alveg örugglega. Nú eigum við eftir að fá sex mánaða uppgjörið til nefndarinnar og þegar nefndarmenn og nefndin erum búin að fara yfir það og ræða á fundi með fjármálaráðuneytinu þá munum við kalla til hlutaðeigandi aðila, þá heilbrigðisráðuneytið og forstöðumenn Landspítalans. Hann kveðst ekki vita hversu miklum fjárhæðum framúrkeyrslan nemi, enda hafi hann ekki fengið sex mánaða uppgjör í hendurnar. Of snemmt sé að segja til um það hvort eða með hvaða hætti rekstrarhallinn í ár hafi áhrif á fjárlög næsta árs.

Fjárlaganefnd kemur saman til fundar á fimmtudaginn í næstu viku en fjárlagafrumvarp ársins 2020 verður fyrsta mál þingvetrarins. Þá liggur einnig fyrir fjárlaganefnd að fara yfir ársskýrslur ráðherra en á fundi nefndarinnar í næstu viku verður fyrst farið yfir sex mánaða uppgjör frá fjármálaráðuneytinu.