Breytt menning
Það selst mikið af alls kyns notuðum vörum í Japan og sala þeirra er að aukast. Það gilda aðrar reglur um förðunarvörur þegar kemur að hreinlæti en flest annað, en eftirspurnin eftir merkjavörum er gríðarleg á sama tíma og ungir Japanir hafa almennt ekki mikið á milli handanna. Þetta unga fólk er að skapa vöxtinn í sölu á notuðum snyrtivörum.
Japanir eru heldur ekki einir um að kaupa notaðar snyrtivörur. Þetta er líka stundað í Bandaríkjunum og Litháen, á Reddit og í sérstökum snjallforritum sem eru notuð til að selja notaðar vörur.
Tilgangurinn helgar meðalið
Það getur verið mjög sóðalegt að deila farða, því bakteríur geta tekið sér bólfestu í notuðum vörum. En sumir ungir Japanir eru tilbúnir að horfa fram hjá því til að fá ódýrt aðgengi að dýrri merkjavöru. Kaupendur notaðra snyrtivara vanda líka kaupin auðvitað vel og skoða hversu oft varan hefur verið notuð, hvenær hún á að renna út og annað slíkt. Seljendur eru líka meðvitaðir um kröfur kaupenda og það ríkir mikið traust og tillitssemi milli kaupenda og seljenda. Þar sem þessar vörur eru seldar eru líka yfirleitt reglur um að þeim sé lýst vel og þær séu ekki útrunnar.
En það eru margir einfaldlega að reyna að spara. Ungt fólk í Japan er almennt ekki vel efnað, það er erfitt að finna stöðuga og vel borgaða vinnu og það sér ekki fram á bjartari tíma. Þannig að þetta fólk hefur ekki efni á dýrum snyrtivörum, en vill þær samt, því vörurnar gleðja. Þau vilja reyna að njóta lífsins en um leið draga úr óþarfa eyðslu, svo þau geti fjárfest í upplifunum. Þess vegna freistar það margra að ná sér í ódýrar snyrtivörur.