Karlmaður sem tók 37 rútufarþega í gíslingu á brú í Ríó de Janeiro í Brasilíu í gær var skotinn til bana af leyniskyttu í aðgerðum lögreglu. CNN greinir frá.
Maðurinn, sem kvaðst vera herlögreglumaður, stöðvaði rútuna með valdi á Rió-Niterói brúnni sem tengir borgirnar Ríó de Janeiro og Niterói. Maðurinn var vopnaður og hótaði að kveikja í rútunni á brúnni yfir Guanarabaflóa.
Samningamönnum lögreglunnar tókst að fá manninn til þess að veita sex gíslum frelsi áður en að leyniskytta úr sérsveit lögreglunnar skaut manninn til bana. Engum gíslanna 31 sem eftir voru í rútunni varð meint af.
Skotinn til bana eftir að hafa haldið 37 í gíslingu
Andri Eysteinsson skrifar
