Innlent

Lög­reglan hafði af­skipti af fjöl­mörgum öku­mönnum

Sylvía Hall skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt. Vísir/vilhelm
Alls komu 90 mál inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á tólf tíma tímabili, frá klukkan 17 í gær til klukkan fimm í nótt. Átta einstaklingar voru vistaðir í fangageymslu ýmissa brota.

Á sjöunda tímanum í gærkvöld voru tveir ökumenn stöðvaðir, einn í Grafarholti og annar í Hlíðahverfi. Sá sem stöðvaður var í Hlíðunum er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna, akstur án þess að hafa öðlast ökuréttindi og að hafa ekki farið að fyrirmælum lögreglu. Þá reyndi ökumaðurinn að hlaupa af vettvangi en hann var vistaður í fangageymslu lögreglu og er málið nú til rannsóknar.

Þá var maður handtekinn í miðborginni, grunaður um þjófnað og eignaspjöll og var sá vistaður í fangageymslu. Í nótt var svo annar maður handtekinn fyrir eignaspjöll. Sá var í annarlegu ástandi og var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.

Tveir til viðbótar voru stöðvaðir í miðborginni í nótt og eru báðir ökumenn grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Annar þeirra virti ekki umferðarmerki og notaði ekki öryggisbelti við aksturinn og var með farþega sem grunaður er um vörslu fíkniefna.

Á Kjalarnesi stöðvaði lögregla ökumann sem grunaður er um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna. Að auki var bifreiðin ótryggð og því skráningarnúmer klippt af. Með í för var tólf ára barn ökumannsins og var tilkynning send til Barnaverndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×