Spurð að því hvort að henni myndi fylgja meiri mildi í útlendingamálum þegar hún tæki við dómsmálaráðuneytinu svaraði Áslaug Arna því ekki beint. Sagðist hún ganga inn í ríkisstjórn með ákveðinn stjórnarsáttmála. Þingmannanefnd hafi verið skipuð til að ræða útlendingamál í víðara samhengi.
Þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lengi farið með málaflokkinn byggðu núgildandi útlendingalög á störfum þverpólitískrar nefndar.
„Það hefur verið mikið samráð um þessi mál og ég mun halda því áfram,“ sagði Áslaug Arna.
Hún var spurð út í gagnrýni sumra flokksfélaga hennar á að hún væri of ung.
„Ef það er eina gagnrýnin þá kvarta ég ekki,“ sagði Áslaug Arna.
Sagðist hún nálgast embættið af auðmýkt og tilhlökkun því hún vissi að mál ráðuneytisins snerti fólk.
„Þó að þau séu erfið er ég ekki hrædd við það heldur,“ sagði hún.