Lækkun á persónuafslætti er liður í skattabreytingum sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2020. Umfangsmesta breytingin er á tekjuskatti einstaklinga en um áramót kemur til framkvæmda fyrri áfangi innleiðingar nýs tekjuskattskerfis. Þessar breytingar fela m.a. í sér þriggja þrepa tekjuskattskerfi en í núverandi kerfi eru þrepin tvö.
Sjá einnig: Persónuafsláttur hækkar um 2.000 krónur á mánuði
Í kynningu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á nýju skattkerfi kemur fram að árið 2021, að lokinni innleiðingu kerfisins, verði skatthlutfall 31,4% í fyrsta þrepi, sem er nýtt lágtekjuþrep á laun upp að 325 þúsund krónum. Hlutfallið verður 37,94% í öðru þrepi og 46,24% í þriðja þrepi.

Við lok innleiðingarinnar árið 2021 mun persónuafsláttur, sem nú er 56.447 krónur á mánuði, nema 51.265 krónum á mánuði. Lækkunin nemur þannig 5.182 krónum.
Nánar um fjárlagafrumvarpið í vaktinni hér að neðan.